Um helgina kláraði ég amk 2 verkefni sem tók innan við klst að klára. Held ég eigi amk 2 önnur sem tekur innan við klst. að klára og mörg fleiri sem tekur lengri tíma að klára (aðallega krosssaum). Ég er sko sannarlega að klást við að-klára-fælnina!! Manni líður líka svo vel að verki loknu. Þar sem ég er hugsanalesari í frístundum mínum þá veit ég að lesandi góður spyr sig - afhverju ekki að klára fyrst það er svona lítið eftir? Svarið er að í handavinnu er það ákveðin innri þörf sem knýr mann áfram í að gera hlutinn. Í mínu tilfelli er það sköpunarþörfin. Um leið og sköpuninni er lokið og einungis á eftir að ganga frá smáatriðunum þá á ég það til að missa áhugann. Stundum kemur reyndar eitthvað annað upp (eins og jólin) þannig að maður þarf að leggja ákveðið verk til hliðar.
Sú var staðreyndin með húfuna sem ég kláraði um helgina. Þetta var hjálmahúfa (barnahúfa sem er í laginu eins og víkingahjálmur, einnig nefnd djöflahúfa!). Ég hafði grunn uppskriftina að húfunni en ekki fráganginn og ekki garn/prjónafestu/prjónastærð eða nein svoleiðis 'smáatriði' (sem eru ekkert smá þegar allt kemur til alls!). Ég var mikið að velta því fyrir mér hvernig t.d. böndin ættu að vera (til að binda undir höku). Þar sem ég hef aldrei gert svoleiðis áður þá þýddi það svolitla yfirlegu. Svo komu jólin og ég á kafi í að búa til jólagjafir. Böndin voru því búin að liggja í bleyti í nokkurn tíma áður en ég ákvað að búa til i-cord. Ég hef aldrei búið til slíkt áður en líst bara vel á. Svo heklaði ég utanum húfuna með krabbahekli, til að styrkja hana. Þessi húfa er handa Kjartani litla, syni Sólborgar vinkonu en hann er tæplega 2 mánaða um þessar mundir. Þetta er reyndar prufueintak en ég er að nota hann til að æfa mig í að gera svona húfu handa litla ófædda barninu mínu ;) Ég notaði Lanett ull, lillabláa og prjónaði fyrst með 2,5 mm pjónum en fannst húfan heldur lítil þannig að ég gerði aðra með 3 mm prjónum. Þetta er mjög fljótgert. Ég veit ekki hvaðan uppskriftin er. Áskotnaðist hún á netinu - mögulega copy/paste úr einhverri bók þannig að ég ætla nú ekki að vera að birta hana hér en sendu mér tölvupóst (sonja at richter punktur org) ef þú hefur áhuga.
Hitt verkefnið sem ég kláraði var bróderaður smekkur handa Kamillu. Ég saumaði (krosssaumur) stafina hennar í trúðalíki í hann. Trúðanna er að finna ókeypis á netinu. Þetta er litskrúðugt og nokkuð auðvelt en datt einhvern veginn uppfyrir á sínum tíma.
Ég hef ekki getað kveikt á myndavélinni minni síðan ég var að vinna að sokkunum um daginn (áður en ég kláraði). Bögg, bögg. Þannig að myndir koma bara seinna!
No comments:
Post a Comment