Tuesday, January 25, 2005

Klárað um helgina

Um helgina kláraði ég amk 2 verkefni sem tók innan við klst að klára. Held ég eigi amk 2 önnur sem tekur innan við klst. að klára og mörg fleiri sem tekur lengri tíma að klára (aðallega krosssaum). Ég er sko sannarlega að klást við að-klára-fælnina!! Manni líður líka svo vel að verki loknu. Þar sem ég er hugsanalesari í frístundum mínum þá veit ég að lesandi góður spyr sig - afhverju ekki að klára fyrst það er svona lítið eftir? Svarið er að í handavinnu er það ákveðin innri þörf sem knýr mann áfram í að gera hlutinn. Í mínu tilfelli er það sköpunarþörfin. Um leið og sköpuninni er lokið og einungis á eftir að ganga frá smáatriðunum þá á ég það til að missa áhugann. Stundum kemur reyndar eitthvað annað upp (eins og jólin) þannig að maður þarf að leggja ákveðið verk til hliðar.

Sú var staðreyndin með húfuna sem ég kláraði um helgina. Þetta var hjálmahúfa (barnahúfa sem er í laginu eins og víkingahjálmur, einnig nefnd djöflahúfa!). Ég hafði grunn uppskriftina að húfunni en ekki fráganginn og ekki garn/prjónafestu/prjónastærð eða nein svoleiðis 'smáatriði' (sem eru ekkert smá þegar allt kemur til alls!). Ég var mikið að velta því fyrir mér hvernig t.d. böndin ættu að vera (til að binda undir höku). Þar sem ég hef aldrei gert svoleiðis áður þá þýddi það svolitla yfirlegu. Svo komu jólin og ég á kafi í að búa til jólagjafir. Böndin voru því búin að liggja í bleyti í nokkurn tíma áður en ég ákvað að búa til i-cord. Ég hef aldrei búið til slíkt áður en líst bara vel á. Svo heklaði ég utanum húfuna með krabbahekli, til að styrkja hana. Þessi húfa er handa Kjartani litla, syni Sólborgar vinkonu en hann er tæplega 2 mánaða um þessar mundir. Þetta er reyndar prufueintak en ég er að nota hann til að æfa mig í að gera svona húfu handa litla ófædda barninu mínu ;) Ég notaði Lanett ull, lillabláa og prjónaði fyrst með 2,5 mm pjónum en fannst húfan heldur lítil þannig að ég gerði aðra með 3 mm prjónum. Þetta er mjög fljótgert. Ég veit ekki hvaðan uppskriftin er. Áskotnaðist hún á netinu - mögulega copy/paste úr einhverri bók þannig að ég ætla nú ekki að vera að birta hana hér en sendu mér tölvupóst (sonja at richter punktur org) ef þú hefur áhuga.

Hitt verkefnið sem ég kláraði var bróderaður smekkur handa Kamillu. Ég saumaði (krosssaumur) stafina hennar í trúðalíki í hann. Trúðanna er að finna ókeypis á netinu. Þetta er litskrúðugt og nokkuð auðvelt en datt einhvern veginn uppfyrir á sínum tíma.

Ég hef ekki getað kveikt á myndavélinni minni síðan ég var að vinna að sokkunum um daginn (áður en ég kláraði). Bögg, bögg. Þannig að myndir koma bara seinna!

Friday, January 21, 2005

Sokkar búnir

Nú eru sokkarnir búnir og ég í þeim í vinnunni, sem og lopapeysunni góðu. Eins gott enda sá ég hitamæli á leiðinni sem sýndi -12°C. Þá var ég nýbúin að heyra í útvarpinu að það ætti eftir að hlýna!!! Varla kólnar meira úr þessu??

Sokkarnir eru ansi þröngir. Mynstrið er svona grunnmynstur og þar sem maður byrjar á tánum þá getur maður mátað sokkinn eftir því sem maður prjónar og lagað að fætinum. Ég gerði það hins vegar aðeins með lengdir en ekki breidd. Það var alveg nógu flókið fyrir mig í þetta skipti. Næst þegar ég prjóna eftir þessari uppskrift (jú, nokkuð viss um að það verður næst - Hafrún ætlaðir þú ekki líka að fara að prjóna sokka?) þá kem ég til með að auka út líka.

Því miður er engin mynd af sokkunum, þeir eru nefnilega geðv... flottir þó ég segi sjálf frá. Sjálfmynstrandi munstrið kom nokkuð vel út og þó að þeir séu ekki 'eins' þá er ég alveg sátt. Ég lét þá nefnilega ekki byrja á sama stað enda er svo langt á milli endurtekninga að það lítur út fyrir að vera random hvort eð er. Nema hvað, myndavélin neitar allri samvinnu. Það er bara lok læs og allt í stáli. Var einhver að tala um nýja myndavél???

Wednesday, January 19, 2005

Sko mína

Í gær saumaði ég á saumavélina mína - í fyrsta skipti. Ég veit ekki hvort ég ætti að skammast mín. Eiginlega ekki því ég er búin að vera á fullu annaðhvort í handavinnu eða í meðgönguþreytu síðan ég fékk hana. Þegar það kemur að handavinnu þá getur maður bara gert eitt í einu. Sumir eru svo heppnir að hafa bara eitt afmarkað áhugamál innan handavinnunnar eins og að prjóna bara eða sauma bara en ég vil helst gera allt!

Ég ætlaði að byrja á að sauma utanum sessuna í uppáhaldsstólnum mínum. Hann er meira en farinn að láta á sjá. Eiginlega er hann bara í henglum! En svo fattaði ég allt í einu að ég ætti eftir að þvo efnið. Hefði getað verið löngu búin að því! Í staðinn kláraði ég að stytta buxur. Ég var löngu búin að klippa neðan af þeim en náði ekki að sauma. Ég var ekki smá stolt af mér þegar ég var búin en ánægjan minnkaði þegar ég fattaði að ég er eiginlega hætt að komast í þessar buxur! Betra seint en aldrei ;) (ég notaði þær sko bara klipptar þannig að skaðinn er ekki svo mikill).

Regia sokkarnir mínir eru alveg að koma heim og saman. Á bara eftir að klára stroffið. Reyndar ekkert bara því það tekur sinn tíma að prjóna 17 cm stroff 2sl2br!
Held að þetta sé garnið sem ég er að nota. Það er amk 6 þráða og í þessum litum!

Friday, January 14, 2005

Laskerma búin!





Kláraði laskermapeysuna í gærkvöldi. Þetta var auðveld og skemmtileg peysa. Hún var skemmtileg afþví að ég var að gera laskerma peysu í fyrsta sinn (sem er lygilega auðvelt reyndar) og af því að ég hafði ekki hugmynd um hvernig peysan kæmi til með að líta út og það örvaði mann áfram í að prjóna. Hálsmálið var tilviljun. Ég hafði upphaflega ætlað að hafa það þrengra en ég var svo ánægð með það svona að það fékk að vera aðeins víðara. Bæði finnst mér það flottara og svo stingur það ekki í hálsinn svona!

Tuesday, January 11, 2005

Laskerma lopapeysan

Ég er mjög spennt yfir lopapeysunni sem ég er að prjóna. Þetta er ekki hefðbundin lopapeysa eins og ég hef gert áður. Hún er t.d. laskerma (það kemur lína frá handveginum að hálsinum, sjá t.d. þessa mynd) og úr mislituðu garni (eða sjálfmynstrandi garni). Garnið er rautt en í mjög breytilegum rauðum litum, alveg frá dökkvínrauðu yfir í ljósrauð/grátt (líklega blanda af hvítu og svörtu sem er lituð). Það kemur mjög sérstakt mynstur og ég er spennt að sjá hvernig afraksturinn verður, ermarnar eru t.d. ólíkar bolnum. Nú er ég búin að sameina ermar og bol og er byrjuð á brjóststykkinu (frá handvegi að hálsi). Þetta er í fyrsta sinn sem ég prjóna laskermar og var svolítið spennt að læra það. Það er mjög auðvelt og skemmtileg aðferð, fljótprjónuð líka.

Ég fer ekki eftir uppskrift en styðst við Sigrúnu, stjúpu mína og aðlaga svo að mínni stærð og óskum. Ég t.d. vildi hafa hafa frekar þrönga (svona m.v. hefðbundna lopapeysu) en er hálfhrædd um að ermarnar séu jafnvel of þröngar. Þær mættu amk ekki vera þrengri.

Í gærkvöldi þurfti ég að rekja aðeins upp, tvær lykkjur dottnar niður og ég gat ekki notað trikkið með heklunálinnu (ná þeim upp með heklunál) því önnur þeirra átti að lenda í úrfellingu :( Svona er það þegar maður heldur að maður geti gert margt í einu. Ég var að horfa á sjónvarpið eða lesa greinar á meðan ég var að prjóna en það gekk ekki eins vel eins og ég taldi mér trú um!

Friday, January 07, 2005

Enn eitt nýja bloggið

Nýja árið er tekið með trukki. Ný blogg birtast mörg á viku. Í þetta sinn handavinnublogg.

Ég hef gaman af margskonar handavinnu. Má þar nefna prjón, krosssaumur, hekl, vélsaumur, bútasaumur og akrýlmálun. Það á örugglega fleira eftir að bætast við. Það er bara svo frábært að byrja með eitthvað efni og umbreyta því í flotta mynd eða nytjahlut. Þegar maður býr til hluti fyrir aðra þá setur maður sál sína og væntumþyggju í verkið og útkoman verður stærri en bara hluturinn sjálfur. Það er minnsta mál að kaupa alls konar dót út í búð en það er engin sál í því.

Eitthvað af því sem ég hef gert er að finna á myndasíðunni en ekki allt. Sérstaklega lítið af því sem ég gerði fyrir jólin í ár þar sem myndavélin okkar er að gefast upp og nánast orðin ónothæf.

Fyrir jólin prjónaði ég mikið. Ég prjónaði þæfða inniskó á ömmur mínar og húfur á bræður mína auk ullarsokka á litla frænda. Núna er sko kominn tími til að prjóna á mig sjálfa. Nú er ég með á nálunum sokka á mig úr Regia garni og laskerma-lopapeysu úr nýja rauðspengda lopanum. Sokkamynstrið er að finna á vefnum en lopapeysumynstrið er uppúr Sigrúnu stjúpu, sem er ótrúleg prjónakerling og í raun leikur öll handavinna í höndunum á henni :o Ég málaði líka nokkrar myndir í haust og gaf annaðhvort í afmælis- eða jólagjafir.

Ég er annars búin að komast að því að maður gerir bara eitt í einu. Núna er ég t.d. í prjónastuði en í sumar var ég með algjört krosssaumsæði. Ég hugsa að næsta æði verði vélsaumur enda klæjar mig í puttana að reyna mig á nýju saumavélinni sem Laufey amma gaf mér í haust. Það eru ýmis verkefni í farveginum þar en ég held ég byrji á einhverju heimafyrir en bútasaumurinn heillar alltaf.