Friday, January 07, 2005

Enn eitt nýja bloggið

Nýja árið er tekið með trukki. Ný blogg birtast mörg á viku. Í þetta sinn handavinnublogg.

Ég hef gaman af margskonar handavinnu. Má þar nefna prjón, krosssaumur, hekl, vélsaumur, bútasaumur og akrýlmálun. Það á örugglega fleira eftir að bætast við. Það er bara svo frábært að byrja með eitthvað efni og umbreyta því í flotta mynd eða nytjahlut. Þegar maður býr til hluti fyrir aðra þá setur maður sál sína og væntumþyggju í verkið og útkoman verður stærri en bara hluturinn sjálfur. Það er minnsta mál að kaupa alls konar dót út í búð en það er engin sál í því.

Eitthvað af því sem ég hef gert er að finna á myndasíðunni en ekki allt. Sérstaklega lítið af því sem ég gerði fyrir jólin í ár þar sem myndavélin okkar er að gefast upp og nánast orðin ónothæf.

Fyrir jólin prjónaði ég mikið. Ég prjónaði þæfða inniskó á ömmur mínar og húfur á bræður mína auk ullarsokka á litla frænda. Núna er sko kominn tími til að prjóna á mig sjálfa. Nú er ég með á nálunum sokka á mig úr Regia garni og laskerma-lopapeysu úr nýja rauðspengda lopanum. Sokkamynstrið er að finna á vefnum en lopapeysumynstrið er uppúr Sigrúnu stjúpu, sem er ótrúleg prjónakerling og í raun leikur öll handavinna í höndunum á henni :o Ég málaði líka nokkrar myndir í haust og gaf annaðhvort í afmælis- eða jólagjafir.

Ég er annars búin að komast að því að maður gerir bara eitt í einu. Núna er ég t.d. í prjónastuði en í sumar var ég með algjört krosssaumsæði. Ég hugsa að næsta æði verði vélsaumur enda klæjar mig í puttana að reyna mig á nýju saumavélinni sem Laufey amma gaf mér í haust. Það eru ýmis verkefni í farveginum þar en ég held ég byrji á einhverju heimafyrir en bútasaumurinn heillar alltaf.

No comments: